föstudagur, 29. ágúst 2008

Empire of Evil


Í kvöld fór ég að sjá heimildarmyndina Empire of Evil. Þetta er þýsk mynd í leikstjórn Mohammad Farokhmanesh frá árinu 2007. Í myndinni er 5 Írönum fylgt eftir og fjallað um líf þeirra. Ég ákvað að fara á þessa mynd vegna þess að mér fannst áhugavert að sjá aðra hlið á umfjöllun um Íran heldur en þá sem við sjáum dagsdaglega í allflestum fjölmiðlum, þ.e. þá neikvæðu ímynd sem klerkastjórn þeirra hefur í hinum vestræna heimi.

Í myndinni er fjallað um líf 5 Írana og þeim fylgt eftir í sínu daglega amstri ásamt því að tekin eru viðtöl við þau og fjölskyldu þeirra eða vini. Í hópi þessara fimm eru 2 konur, 2 karlar og ein lítil stelpa.

Fyrst fylgjum við eftir konu sem æfir skylmingar og þráir það að geta orðið íþróttamaður. Það er hins vegar hægara sagt en gert þar sem að gífurleg bönn og þvinganir ríkja á konum auk þess sem nánast engum fjármunum er varið í íþróttir kvenna í Íran. Þrátt fyrir það að fram komi að stjórnin geri lítið sem ekkert fyrir þessa konu kemur í ljós ótrúleg ást á landinu sínu hjá henni. Hún segir að þetta sé heimili sitt og enginn geti nokkurn tíma sagst ekki líka við heimili sitt. Samt sem áður vilja hún og maður hennar flytja til Bandaríkjanna.

Hin konan sem við fygldumst með hafði yndi af tónlist og söng. Hér var þó það sama uppi á teningnum og með íþróttastelpuna. Vegna allra þessara boða og banna sem lúta að konum átti hún mjög erfitt með stunda tónlistarnám, fá vinnu og fékk að lokum ekki að gefa út disk sem hún hafði þó náð að syngja inn á.

Litla stelpan sem við sáum gat átt mjög bjarta framtíð fyrir sér, hún stundaði píanó og söngnám ásamt því að vera í skóla. Hins vegar höfðum við fengið að sjá hvernig fór fyrir hinum tveimur konunum í myndinni og þess vegna var erfitt að ímynda sér að hún fengi nokkurn tíman að fást við það sem hún var að læra eða hafði gaman af að gera.

Við fylgdumst síðan með manni sem vann sem tölvusérfræðingur. Fyrir utan vinnu sína hjálpaði hann fólki með tölvur sínar og var í deild í hernum og tilbúinn að verja land sitt.

Hinn maðurinn sem við fylgdumst með skar sig allverulega úr öllum hópnum. Hann var efnaður kennari sem rak sinn eigin einkaskóla. Hann predikaði orð Kóransins og Islam í messum, skólanum og í öðrum einkaskólum. Hann var friðarsinni og rólyndismaður sem var mjög bjartsýnn á lífið og trúði því að Íranir þyrftu bara að geta kynnt sig og trú sína betur til að heimurinn myndi skilja þau betur.




Samantekt á hópnum:

Það sem allir áttu sameiginlegt í þessum hóp var að þrátt fyrir alla erfiðleikana sem flest þeirra stóðu frammi fyrir (allir utan kennarans í raun) voru þau mjög bjartsýn. Allir utan kennarans vonuðu að margt myndi breytast fljótlega í réttindabaráttu kvenna og að stjórnin myndi gefa sig örlítið og hugsa meira um fólkið í landinu. Kennarinn trúði því að ekkert væri að stöðu kvenna og að kóraninn upphefði konur frekar en að hefta þær. Hann var líka sá eini sem bjó einn, öll hin bjuggu hjá foreldrum sínum eða sáu um þau.
Í viðtölum í myndinni hafði komið fram á skoðunum fólks að ef þú værir efnaður væri lífið í Íran allt öðruvísi og auðveldara, það endurspeglaðist mjög vel í mismunandi viðhorfum Kennarans og svo allra hinna.


Dómur:

Mér fannst þessi mynd mjög áhugaverð og gaman að sjá mannlega hlið á Íran. Mér fannst samt stundum vanta að klára það sem byrjað var á með hverjum einstaklingi. Áhorfandi var oft skilinn eftir í svolítilli óvissu um hvað var í gangi hjá þeim sem fylgst var með þegar skipt var um manneskju. Það hefði mátt gefa sér aðeins lengri tíma með hverjum og einum eða taka fyrir færri persónuleg mál þeirra. Annars hafði ég bara mjög gaman af þessari mynd og eins ég sagði áður var mjög áhugavert að fá að sjá aðeins málefni Íran að innan og skoðanir Írana á þeim. Ég gef myndinni 10,5 á skalanum 7-12.



sunnudagur, 24. ágúst 2008

Kvikmyndagerð

Þá er þetta komið í gang.

Á næstu dögum ætla ég að reyna að negla niður mínar topp 10 myndir og skrifa um þær ásamt því að skrifa um myndirnar sem ég sé á Reykjavík Shorts & Docs. Eins og staðan er núna held ég að ég fari að sjá Body of war, empire of evil ásamt íslenska heimildamyndapakkanum og einhverjum stuttmyndapakka, þeir líta allir vel út.