mánudagur, 26. janúar 2009

Rock'N'Rolla

Ég horfði í síðustu viku á nýjustu mynd Guy Ritchie Rock'N'Rolla. Eftir að hafa séð trailera og auglýsingar fyrir myndina var ég alveg frekar heitur fyrir henni. Þetta virtist vera mynd í anda hinna frægu Guy Ritchie myndanna, Lock stock and two smoking barrels og Snatch. Ég vissi hins vegar vel að það gat líka unnið gegn henni að svipa mikið til þeirra því ef þær stæðust ekki væntingarnar miðað við þær yrði hún alltaf "æj, þessi lélega frá Guy". Með þetta í huga ákvað ég að reyna að horfa samt á myndina óháð hinum tveimur.

Rock'N'Rolla gerist í London og fjallar um gruggug mál sem eiega sér stað í borginni. Aðalpersóna myndarinnar heitir Archie og er aðstoðarmaður og hægri hönd manns sem heitir _______. Hann virðist vera stórlax í glæpaheimi London og hefur alla í vasanum. Nú er hann að díla við rússneksan auðjöfur og er að koma ólöglegum byggingaáætlunum hans í gegnum borgarstjórnina með samböndum sínum gegn ágætis þóknun. Ekki gengur þó allt átakalaust og kynnumst við fullt af mismunandi óþjóðalýð, svikurum og dópistum sem allir flækjast einhvern vegin inn í atburðarrásina og mynda fléttuna í myndinni.

Archie er sá sem að talar yfir myndina í byrjun þegar við erum kynnt fyrir öllum þeim persónum sem koma svo síðar við sögu í myndinni. Við kynnumst honum því mest í byrjun og tengjumst honum því best og samsömum okkur með honum út myndina. Archie er mjög nettur gæji, alltaf pollrólegur, yfirvegarður og bara heavy svalur í alla staði.

Það sem mér finnst helst há þessari mynd er söguþráðurinn. Hann er einfaldlega ekki nógu sterkur til að halda henni uppi og alls ekki nógu töff. Allir litlu söguþræðirnir í kringum stóra verða þar af leiðandi næstum jafn góðir og sá stærsti og þess vegna svolítið kaotískara en það ætti að vera. Þú hefur þá líka jafnframt oft meiri áhuga á þeim en meginþræðinum og stóru atburðarásinni. Manni finnst líka alltaf eins og myndin sé að byggja upp fyrir eitthvað sem er að fara að gerast og í raun er því eins og öll myndin sé bara kynning og uppbygging fyrir næstu mynd, sem er einmitt auglýst í lok þessarar(!).

Leikurinn í myndinni er líka mjög misjafn og mikið af litlu hlutverkunum skila sér ekki alveg nógu vel eða sterkt til áhorfandans. Archie og flest helstu hlutverkin eru þó vel leikin og bjargar það því heildarleik myndarinnar. Það sem er samt virkilega vel gert í myndinni og gefur henni þann töffarablæ sem er yfir henni er tvennt. Annars vegar er það tónlistin sem er undir myndinni og hins vegar klippingar og skot í henni. Sérstaklega eru það tvö atriði þar sem klippingar og myndataka er mjög töff. Annað þeirra er eltingaleikur milli tveggja óþokka um víðan völl, m.a. lestarteina og um garða fólks


og hins vegar kynlífssena.


Samantekt
Ég hafði mjög gaman af þessari mynd og mæli alveg með henni sem flottri afþreyingu. Hins vegar fannst mér þessi mynd og uppbygging hennar mjög lík Snatch, nema bara verri þ.a. það fór svolítið í taugarnar á mér. Ég horfði t.d. á Snatch daginn eftir bara því ég fór svo mikið að hugsa um hana þegar ég sá þessa. Kynning persóna er með svipuðum hætti, alltaf tónlist undir o.fl. nema hvað að flækjan, söguþráðurinn og leikurinn í Snatch er bara miklu betri. Ég hefði örugglega líka horft á Lock, stock and two smoking barrels aftur ef ég hefði bara átt hana.
Samt sem áður, mjög fín mynd sem gaman er að eyða 2 tímum í ef þú hefur ekkert að gera. Mun betri en Death Race sem ég horfði á í gær t.d. (veit ekki alveg hvort það þurfi rosalega mikið til).

14 og hálf stjarna á skalanum 11-18 og 1/2

fimmtudagur, 22. janúar 2009

2008

Kvikmyndaárið mitt 2008

Þegar ég lít til baka núna og reyni að rifja upp hvaða kvikmyndir ég sá á árinu átta ég mig á því að í rauninni horfði ég mjög lítið á kvikmyndir fyrri hluta árs. Ég féll í þá gryfju að horfa mestmegnis á sjónvarpsþætti. Ég fylgdist með mínum reglulega þáttum auk þess sem ég át upp heilu þáttaraðirnar sem ég hafði aldrei fylgst með áður. Auk þeirra þátta sem ég taldi upp í nýlegri færslu minni má nefna að ég horfði á allar sjö seríurnar af Scrubs, Heroes, fyrstu seríuna af Dexter, Mad Men undir lok árs og fleiri.

Ég sá þó slatta af kvikmyndum á árinu. Þær voru kannski ekki allar einhver meistarastykki en ég reyndi að auka gæði þeirra mynda sem ég sá þegar leið á árið, kannski áhrif sem rekja má til þessa fags. Þegar við fórum svo að gera topp 10 færsluna okkar ákvað ég að horfa á allar þær myndir aftur. Þar halaði ég inn góðum 2-3 vikum af klassa kvikmyndaáhorfi. Kannski ég vindi mér bara í aðalefni þessarar færslu og fari yfir þær myndir sem mér fannst standa upp úr árið 2008:

The Dark Knight

Í vikunni var birtur listi yfir þær myndir sem tilnefndar eru til óskarsverðlauna. Ekkert svakalega mikið kom á óvart nema það að þessi mynd var ekki tilnefnd sem besta myndin. Ég er ekkert að segja að þetta sé epískasta mynd allra tíma sem hafi átt skilið að fara beint á toppinn á imdb en þetta er samt fokking góð mynd og stóð upp úr á síðasta ári. Ég hef reyndar ekki séð allar hinar myndirnar sem voru tilnefndar en stefni að því að gera það núna og ákveða svo hvort þetta sé eins fáránleg ákvörðun og mér finnst hún vera núna.
Eftirvæntingin og spennan fyrir The dark knight var svakaleg. Dúndurgóð fyrri mynd, Batman Begins, meint sjálfsmorð Heath Ledgers og móðurbarsmíðar Cristians Bale var allt, hversu ógeðfellt sem það hljómar, vatn á millu framleiðanda myndarinnar. Ég er sammála Andra Gunnari að sú staðreynd að myndin er mjög góð og stendur undir þessum væntingum hype'aði hana alveg svakalega upp. Engu að síður tel ég þetta vera algjöra klassa mynd sem er einungis ekki á topp 10 listanum mínum hér til hliðar sökum þess að ég hef ekki séð hana nógu oft til að hún fái að fara þangað strax. Þrátt fyrir að Heath Ledger beri höfuð og herðar yfir aðra leikara myndarinnar með svakalega dramatískum og sannfærandi túlkun á Jókernum að þá finnast mér bæði Christian Bale og Aaron Eckhart standa sig með eindæmum vel og eiga mikið hrós skilið. Myndin er svo í alla staði vel unnin og bara fokking töff. Bara eiginlega ógeðslega töff mynd!

No country for old men

Allt síðan ég sá þessa mynd hefur mig langað til að horfa á hana aftur og þegar ég skrifa þetta fatta ég ekki alveg af hverju ég gerði það aldrei. Ég vildi ekki samþykkja það að þessi mynd hefði verið gerð og að hún væri svona ljót og illskulega að ástæðulausu, að þetta væri bara afþreying. Ég hélt að það hlyti að vera einhver boðskapur með henni, ég komst aldrei til botns í því máli en íhugaði nokkra möguleika sem ég nenni ekki að ræða um hérna. Javier Bardem stendur sig feikna vel í þessari mynd í að túlka eina fólskulegustu persónu sem ég hef séð í kvikmyndum. Yfirbragð myndarinnar er mjög sannfærandi og ég sá alls ekkert eftir því að borga mig inn á hana og dauðlangar núna að sjá hana aftur þegar ég fer að hugsa um hana.

Eftir prófin í fyrra fór ég að vinna fyrir Kennarasamband Íslands á Flúðum. Ég fór austur á mánudagsmorgni, var þar alla vikuna við vinnu og kom heim á föstudagkvöldum. Eina helgina sá ég Iron Man, hún var geðveik. Robert Downey Jr. var fáránlega nettur og einn svalasti melur sem ég hafði séð lengi. Ég vissi lítið sem ekkert um teiknimyndasögurnar áður en ég sá myndina og því kom allt mér skemmtilega á óvart. Ég fór síðan aftur á Flúðir og sagði vini mínum frá þessari geðveiku mynd sem ég hafði séð og hann yrði að sjá. Hann sagði mér frá The Mist, sem væri "geðveik mynd" og "ég yrði að sjá".

The Mist sökkar og þið þurfið ekki að sjá hana, Iron Man rokkar!

Forgetting Sarah Marshall


Þetta er kannski sú mynd sem kom mér mest á óvart á árinu. Ég hélt ég væri að fara að sjá einhverja mjög klisjulega frekar leiðinlega mynd. Ok, ég sá smá klisjulega mynd en hún var langt frá því að vera leiðinleg. Þetta er einhver skemmtilegasta hollywood grínmynd sem ég hef séð í þónokkurn tíma. Ég hló alveg upphátt, oft.

Death at a funeral


Grínmynd ársins, tvímælalaust.

Reykjavík-Rotterdam

Mér finnst RR vera ein besta íslenska kvikmynd sem ég hef séð og bara í alla staði góð spennumynd. Mér fannst líka mjög gaman að fá Óskar Jónasson í heimsókn og spjalla við hann um gerð myndarinnar, það kannski pumpar hana ósjálfrátt upp um einhver stig í hausnum á mér. Þið sem lesið þetta hafið öll séð myndina þ.a. ég fer svosem ekkert nánar út í hana.


Þetta eru þær myndir sem komu út í fyrra (ok ok, death at a funeral kom út 2007 en ekki fyrr en 2008 á Íslandi) og mér fannst skara fram úr. Af þeim myndum sem ég horfði hins vegar á fyrir utan þessar er kannski helst að nefna topp 9 listann minn sem ég horfði á allan í kringum færsluna + einhverjar myndir sem voru næstum því á honum. Skemmtilegast fannst mér að sjá Old Boy og Gattaca aftur.