mánudagur, 26. janúar 2009

Rock'N'Rolla

Ég horfði í síðustu viku á nýjustu mynd Guy Ritchie Rock'N'Rolla. Eftir að hafa séð trailera og auglýsingar fyrir myndina var ég alveg frekar heitur fyrir henni. Þetta virtist vera mynd í anda hinna frægu Guy Ritchie myndanna, Lock stock and two smoking barrels og Snatch. Ég vissi hins vegar vel að það gat líka unnið gegn henni að svipa mikið til þeirra því ef þær stæðust ekki væntingarnar miðað við þær yrði hún alltaf "æj, þessi lélega frá Guy". Með þetta í huga ákvað ég að reyna að horfa samt á myndina óháð hinum tveimur.

Rock'N'Rolla gerist í London og fjallar um gruggug mál sem eiega sér stað í borginni. Aðalpersóna myndarinnar heitir Archie og er aðstoðarmaður og hægri hönd manns sem heitir _______. Hann virðist vera stórlax í glæpaheimi London og hefur alla í vasanum. Nú er hann að díla við rússneksan auðjöfur og er að koma ólöglegum byggingaáætlunum hans í gegnum borgarstjórnina með samböndum sínum gegn ágætis þóknun. Ekki gengur þó allt átakalaust og kynnumst við fullt af mismunandi óþjóðalýð, svikurum og dópistum sem allir flækjast einhvern vegin inn í atburðarrásina og mynda fléttuna í myndinni.

Archie er sá sem að talar yfir myndina í byrjun þegar við erum kynnt fyrir öllum þeim persónum sem koma svo síðar við sögu í myndinni. Við kynnumst honum því mest í byrjun og tengjumst honum því best og samsömum okkur með honum út myndina. Archie er mjög nettur gæji, alltaf pollrólegur, yfirvegarður og bara heavy svalur í alla staði.

Það sem mér finnst helst há þessari mynd er söguþráðurinn. Hann er einfaldlega ekki nógu sterkur til að halda henni uppi og alls ekki nógu töff. Allir litlu söguþræðirnir í kringum stóra verða þar af leiðandi næstum jafn góðir og sá stærsti og þess vegna svolítið kaotískara en það ætti að vera. Þú hefur þá líka jafnframt oft meiri áhuga á þeim en meginþræðinum og stóru atburðarásinni. Manni finnst líka alltaf eins og myndin sé að byggja upp fyrir eitthvað sem er að fara að gerast og í raun er því eins og öll myndin sé bara kynning og uppbygging fyrir næstu mynd, sem er einmitt auglýst í lok þessarar(!).

Leikurinn í myndinni er líka mjög misjafn og mikið af litlu hlutverkunum skila sér ekki alveg nógu vel eða sterkt til áhorfandans. Archie og flest helstu hlutverkin eru þó vel leikin og bjargar það því heildarleik myndarinnar. Það sem er samt virkilega vel gert í myndinni og gefur henni þann töffarablæ sem er yfir henni er tvennt. Annars vegar er það tónlistin sem er undir myndinni og hins vegar klippingar og skot í henni. Sérstaklega eru það tvö atriði þar sem klippingar og myndataka er mjög töff. Annað þeirra er eltingaleikur milli tveggja óþokka um víðan völl, m.a. lestarteina og um garða fólks


og hins vegar kynlífssena.


Samantekt
Ég hafði mjög gaman af þessari mynd og mæli alveg með henni sem flottri afþreyingu. Hins vegar fannst mér þessi mynd og uppbygging hennar mjög lík Snatch, nema bara verri þ.a. það fór svolítið í taugarnar á mér. Ég horfði t.d. á Snatch daginn eftir bara því ég fór svo mikið að hugsa um hana þegar ég sá þessa. Kynning persóna er með svipuðum hætti, alltaf tónlist undir o.fl. nema hvað að flækjan, söguþráðurinn og leikurinn í Snatch er bara miklu betri. Ég hefði örugglega líka horft á Lock, stock and two smoking barrels aftur ef ég hefði bara átt hana.
Samt sem áður, mjög fín mynd sem gaman er að eyða 2 tímum í ef þú hefur ekkert að gera. Mun betri en Death Race sem ég horfði á í gær t.d. (veit ekki alveg hvort það þurfi rosalega mikið til).

14 og hálf stjarna á skalanum 11-18 og 1/2

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 7 stig.

Ég hafði gaman af kynlífssenunni, hún var nokkuð vel úr garði gerð.