Hægt var að lesa þessar hrikalegu fréttir úr url‘inu en ég vildi ekki trúa þessu þannig að ég smellti á slóðina. Ég komst að því að grunur minn var á rökum reistur, þetta er að gerast...
Ég vinn því ötullega að því núna að fá alla sem ég get fundið og hafa ekki notið snilldarinnar sem er Old Boy að drífa sig í því áður en það verður um seinan. Látið orðið berast.
Ég ákvað í kjölfarið að horfa sjálfur aftur á þessa epísku mynd og ætla nú að blogga aðeins um þá lífsreynslu mína.
Ég veit ekki alveg hversu mikið má segja um þessa mynd. Málið er nefnilega það að þessi mynd er með eitthvað stórfenglegasta plott sem um getur og maður verður að passa sig allsvakalega á því hvað maður segir. Það sem ég get sagt er þetta; Myndin fjallar um mann sem er lokaður inni í 15 ár. Hann veit ekki af hverju og hann veit ekki hver stóð á bak við það. Honum er síðan sleppt aftur út í samfélagið og hann hefur fimm daga til þess að komast að því hver stóð á bak við fangelsun sína og ná fram hefndum.
Það er svo margt í þessari mynd er framúrskarandi og ótrúlega gott að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Kannski ég byrji á því augljósasta; Min-sik Choi er magnaður í hlutverki Dae-su Oh. Leikur hans er stórkostlegur, hvort sem hann er að tala yfir myndina (sem hann gerir mikinn hluta hennar) eða túlka þær trylltu tilfinningar sem karakter hans finnur fyrir í gegnum myndina. Persóna hans tekur þvílíkum breytingum og stakkaskiptingum í gegnum myndina og fer í gegnum allan tilfinningaskalann og Choi sannfærir mann alltaf. Ég hef sjaldan lifað mig jafn mikið inn í persónu og hug hennar heldur en ég gerði í þessari mynd þrátt fyrir það að ástand hans er eitthvað sem enginn ætti að geta ímyndað sér og enginn myndi nokkurn tíman einu sinni viljað geta ímyndað sér.
Næst langar mig að tala um söguna sjálfa. Ég held að myndin sé gerð eftir sögu, eða ég sé ekki betur en það á imdb síðunni um hana. Hvort sem það er rétt hjá mér eða ekki er handritið og sagan allavega mjög mögnuð. Sagan er mjög vel uppbyggð og flækjan í henni er ein af þeim bestu sem til eru. Ég er alveg að meina það, þetta er fokkin‘ magnað plott. Þetta er ekki eitthvað: vá, the usual suspects er með geðveikt plott, alveg það besta sem til er í heimi! Old boy tekur það ósmurt og rústar því, eitthvað mind blowin‘ sjitt (ok, nú er ég kannski farinn að byggja þetta mikið upp en ákvað bara að koma því vel til skila að þetta er mjög gott plott).
Ég hef ekkert séð annað eftir leikstjórann, Chan-wook Park en hann var með í því að skrifa handritið þannig að búast má við því að það sé því vel sniðið að þeim hugmyndum sem hann hafði um myndina fyrirfram og ekki mikið hafi breyst frá handritinu miðað við myndatökuna o.fl.. Það eru nokkur atriði sem mér finnst mjög töff við þessa mynd;
Kvikmyndatakan er mjög töff og nær vel að byggja upp rétt stemningu í myndinni, hvað sem á við hverju sinni. Hljóðið styrkir einnig myndina mjög vel og segir það að nú er ég nýbúinn að horfa á myndina og man nánast ekkert eftir hljóðinu sem mér finnst alltaf vera hrós. Ég tók samt (vegna þess að ég var að fylgjast með því) alveg eftir því hvernig það hjálpaði mikið til við það að stjórna andrúmsloftinu, spennu o.fl..
Tímaröð atriða í myndinni er ekki alltaf alveg rétt. Atriðin mixast aðeins í tímaröð og það er oft vandmeðfarið. Við erum ekkert að tala um eitthvað jafn mikið rugl og Tarantino vinnur t.d. með en samt er auðvelt að fokka upp nokkrum atriðum sem gerast ekki alveg í röð og láta það pirra áhorfanda óendanlega mikið. Park tekst hins vegar mjög vel til með það að flétta söguna saman og láta hana mynda flott heild og þessi nokkur atriði sem eru ekki alveg rétt renna bara vel í gegn og styrkja söguna bara.
Myndin er mjög ofbeldisfull og brútal á köflum. Þrátt fyrir það nær Park að beita ofbeldinu mjög vel (?) í myndinni. Maður finnur miklu meira fyrir því en í flestum myndum og það hefur mikil áhrif á mann. Í einu svalasta bardagaatriði sem gert hefur verið (sjá video neðar) er t.d. bara hljóðið sem heyrist þegar Dae-su kýlir gæjana eða ber þá með hamrinum svo hrátt að það eitt ýtir við manni. Í þessu atriði er hann líka ekkert að valta yfir þá og er alveg barinn niður nokkrum sinnum og stunginn og er við það að bugast. Það þarf líka engin 100 þúsund högg til að klára andstæðingana og þeir líta ekki allir út fyrir að vera með fimmfalt svartabeltið í einhverjum 20 bardagalistum eins og vill gerast í mörgum myndum. Það er því kannski hægt að segja að ofbeldið í þessari mynd sé hrárra og meira sannfærandi en flestar aðrar myndir bjóða upp á og þannig hefur það miklu meiri áhrif á mann. Einnig verður maður ekki ónæmur fyrir því strax þar sem það er ekki í hverju atriði og skiptir í raun ekki höfuðmáli í myndinni og því getur Park notað það út alla myndina til að hafa áhrif á mann og styrkja sögu sína.
Atriðið sem ég talaði um að ofan
Samantekt
Þessi mynd er algjör epík. Einungis það að hún er í #16 sæti á imdb listanum ætti að segja fólki nóg til þess að sjá hana undir eins. Nánast allt við þessa mynd er alveg óaðfinnanlegt og maður getur ekki slitið augun af skjánum í þá tvo tíma sem hún er. Leikurinn, leikstjórnin, hljóðið, kvikmyndatakan, sagan. Allt er þetta frábært og þetta var ein af þeim myndum sem ég vissi alltaf að yrðu á topplistanum mínum þegar ég fór að búa hann til í haust. Ég gef henni því frábær meðmæli og segi, nei, skipa öllum að sjá hana áður en fyrirfram auglýst nauðgun Spielberg á sér stað.Lokaeinkunn: 9/10