sunnudagur, 21. september 2008

The Golden Compass


Fyrir nokkrum árum las ég Gyllta áttavitann eftir Philip Pullman. Hann er fyrsti hluti frábærs þríleiks sem hann skrifaði og vann sér það m.a. til afreks að vera bannaður af Páfagarði. Innihald bókarinnar er gríðarmikið og mörgum söguþráðum fylgt. Hún gerist á löngum tíma og margt er að gerast í einu. Í bók er hægt að gera öllu þessu góð skil með mörgum orðum en þegar ég frétti af því að kvikmynda ætti hana hugsaði ég strax að hrikalega erfitt yrði að gera handrit eftir bókinni sem gæti fylgt allri sögunni eftir og gert henni góð skil.

Sagan gerist semsagt í öðrum heimi, hliðstæðum okkar en mun ævintýralegri. Við fylgjumst með Lýru, lítilli stúlku og baráttu hennar í að berjast fyrir hið góða í heiminum. Hún hittir marga á leiðinni og flækist á marga staði og allt endar þetta í mikilli flækju söguþráða sem svo fléttast vel saman. Handriti myndarinnar tekst hins vegar engan veginn að vera sannfærandi né gott. Öllu er bara hraðað og engu sleppt eða breytt svo þetta gangi upp í kvikmynd. Klippingar verða ruglingslegar og hraðar því það virðist ekki skipta máli að þetta komi vel út í myndinni heldur bara að ná að koma öllum þessum helvítis söguþræði fyrir sem tekst ekki einu sinni vel því að þetta þarf að ganga svo hratt og öllu er bunað út. Ég held að ég hefði ekki náð að fylgjast vel með myndinni ef ég hefði ekki lesið bókina og það kom í ljós þegar mamma og pabbi horfðu á hana að þau þurftu nokkrum sinnum að stoppa og spyrja mig um atvik sem höfðu gerst og forsögu hinna og þessara karaktera. Það sem myndin má þó eiga er að hún er ótrúlega flott, enda vann hún til óskarsverðlauna fyrir visual effects og Dakota Blue Richards er frábær í hlutverki hinnar ungu Lýru.

Samantekt:
Mér fannst mjög leiðinlegt að ekki tókst betur til með þessa mynd sökum þess hve bækurnar eru góðar. Miklu var til tjaldað og öll umgjörð myndarinnar er flott og Nicole Kidman og Daniel Craig fengin í tvö af stærri hlutverkunum. Hins vegar er handritið of tætingslegt og söguþræðinum nánast troðið upp á mann öllum í einu og klippingar lélegar, senur fá ekki að lifa o.fl.. Í heildina er þessi mynd mikil vonbrigði og ekki skrítið að hætt hafi verið við að framleiða myndir 2 og 3 eftir seinni bókum þríleiksins.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 5 stig.