Hér kemur topp 9 listinn minn. Þetta voru þær 9 myndir sem ég vildi hafa hérna, gat ekki fundið eina í viðbót sem ég taldi vera á sama stalli og þessar án þess að þurfa að setja slatta inn með. Check it!
American psycho (2000)
Eftir að vinur minn var búinn að lofa þessa mynd endalaust að þá horfði ég loksins á hana í fyrsta sinn fyrir rúmu ári. Ég varð samstundis ótrúlega hrifinn af henni. Hún fjallar um mann sem á í innri baráttu við geðveikina sem kraumar í honum.
Hún er gerð eftir skáldsögu eftir Bret Easton Ellis en kvikmyndahandritið er unnið af Mary Harron (sem einnig var leikstjóri myndarinnar) og Guinevere Turner. Mér fannst það mjög gott og það virðist vera að skáldsagan sé einnig mjög áhrifarík og góð þar sem geðveikinni er lýst mjög vel. Kvikmyndatakan er flott í myndinni en aðallega finnst mér hljóðið oft mjög vel gert og undirstrikar oft vel geðveiluna í aðalpersónunni. Þá komum við að höfuðatriðinu því það sem gerir þessa mynd að epík er snilldarleikur Christian Bale í aðalhlutverkinu. Mér finnst hann fullkominn í þessari mynd og ég hef í raun átt erfitt með að trúa því eftir þessa mynd að hann sé ekki snarklikkaður sjálfur.
Þetta atriði er eitt af mínum uppáhalds í myndinni og sýnir Christian Bale í essinu sínu, njótið:
Romper Stomper (1992)
Í myndinni er fylgst með hópi nýnasista og leikur Russel Crowe aðalpaurinn í hópnum. Ég var mjög efins um það hvort ég ætti að setja þessa mynd á listann. Þetta er nefnilega eina myndin á þessum lista sem ég hef bara séð einu sinni. Þrátt fyrir það þá hafði hún mikil áhrif á mig og þegar ég hugsa um nýnasista þá hugsa ég til hennar. Sökum þess hversu minnisstæð hún er mér og mörg atriðin áhrifarík ákvað ég að leyfa henni að vera á þessum lista. Ég er nú búinn að útvega mér hana og ætla að horfa á hana aftur og er að hugsa um að smella þá inn sérstakri færslu um hana. Það má þó nefna að þetta er þó sú mynd sem skaut Russel Crowe frá Ástralíu til Hollywood.
Mallrats (1995)
Ég velti því svolítið fyrir mér hvort ég ætti að setja Mallrats eða Clerks á þennan lista en komst loks að þeirri niðurstöðu að mér þætti Mallrats skemmtilegri. Clerks er frábær og eiginleg ótrúleg independent mynd en ég hef alltaf haft meira gaman af Mallrats. Allar tilvitnanir og vísanir Kevin Smith í myndum sínum eru æðislegar og í Mallrats fer hann á kostum hvað þær varðar. Myndin fjallar um tvo félaga sem eiga báðir í vandræðum með kærustur sínar og fylgir þeim einn dag í mall‘inu í hverfinu. Allir aukakarakterar í myndinni eru svo óborganlegir og þá ber helst að nefna tvíeykið Jay and Silent Bob. Allt lokaatriðið í þessari mynd, þ.e. sjálfur date þátturinn er svo það sem kórónar svo þessu frábæru grínmynd.
Gattaca (1997)
Í þessari mynd gerist ekkert…
…eða rosa lítið í það minnsta, samt frábær mynd. Hún fjallar um það að í framtíðinni verði börn búin til úr bestu hugsanlegu genum foreldra sinna. Þannig verði hægt að greina fólk niður í þjóðfélaginu út frá því hvernig það mun standa sig, út frá genasamsetningu þeirra og líkindum til árangurs. Ethan Hawke leikur mann sem er „God child“, þ.e. ekki búinn til heldur fæddur í þennan heim á venjulegan máta.
Hann mun aldrei fá vinnu við að gera það sem hann elskar því að hann er með 99% möguleika á hjartagalla. Hann er hins vegar það ákveðinn í að sanna það að hann hafi það sem til þarf; „there is no probability for fate“. Með hjálp manns sem er fullkominn en lenti í slysi, leikinn af Jude Law, tekst honum að sigla undir fölsku flaggi. Þegar yfirmaður hans er myrtur og öryggisviðbúnaður á vinnustaðnum aukinn verður það þó alltaf erfiðara og erfiðara.
Þessi mynd er mjög áhugaverð og vekur upp spurningar um það hversu mikið við eigum að reiða okkur á vísindi þegar það kemur að mannlegu eðli. Ethan Hawke og Jude Law eru frábærir í þessari mynd og hún er mjög flott unnin í alla staði. Þetta er sú mynd sem er styst síðan ég sá á þessum topp10 lista mínum en samt sem áður ein af 4 sem ég var alveg viss frá upphafi að myndi vera á honum.
Monty Python and the holy grail (1975)
Ég var að lesa topp5 færsluna hans Andra. Þar talaði hann
um að Mallrats væri ein af hans uppáhalds vegna þess að bróðir hans hefði átt hana á spólu og hann séð hana svo oft og svo snemma að hún væri nánast bara tengd honum. Það sama á við um mig og Monty Python and the holy grail. Stóri bróðir minn elskaði Monty Python og þessa mynd horfði ég á aftur og aftur en hef reyndar ekki séð hana núna í svolítinn tíma. Hún er samt óborganlega fyndin og breski húmor Monty Python skín sem aldrei fyrr í henni. Yndisleg mynd og ekkert meira um það að segja.
Pulp Fiction (1994)
Ég veit ekki einu sinni hvort ég þurfi að skrifa eitthvað. Þessa mynd þekkja allir og þetta nafn talar nánast fyrir sig sjálft. Frábær mynd og leikstjórn, ótrúlegar samtalssenur og söguþráður og frábær leikur úrvalsliðs leikara. Klassa mynd hvernig sem á það er litið, algjör epík.
Old boy (2003)
Choi Min-sik leikur mann sem hefur sturlast á því að vera lokaður inni í 15 ár og sér ekkert
annað en hefnd. Þessi mynd er virkilega brútal og ofbeldið mjög sýnilegt og gróft á tíðum. Samt sem áður gengur myndin ekki bara út á að sjokkera þig með ofbeldinu heldur er þetta mjög góð saga. Leikstjórnin hjá Park Chan-Wook er góð og allt við myndina er mjög sannfærandi, hvort sem það er myndataka, hljóð eða klipping. Svo skemmir það alls ekkert hversu vel Choi Min-Sik túlkar vitfirr
una í karakter sínum og er trúverðugur. Mynin hafði mikil áhrif á mig þegar ég sá hana og ég mæli með því að þeir sem hafi ekki séð hana bæti úr því fyrr en seinna.
The usual suspects (1995)
Þetta er kannski sú mynd sem er tæpust á því að vera á þessum lista mínum. Þrátt fyrir það er þetta klassa mynd. Fimm krimmar hittast við line-up og fara að bralla saman en lenda þó fljótt í því að þeir virðast allir eiga einn sameiginlegan fjandmann, Keyser Söze. Söguþráðurinn í þessari mynd er listilega vel skrifaður og plottið frábært. Allir leikararnir standa sig mjög vel en óskarsverðlaunaleikur Kevin Spacey er það sem kórónar þessa mynd.
Fight Club (1999)
Ég ákvað að setja myndirnar á þessum lista ekki í neina sérstaka röð en þó get ég sagt að þessi er í fyrsta sæti. Söguþráðurinn, leikurinn, samtölin, handritið, myndatakan, plottið, þetta er allt stórkostlegt. Ég ætla ekkert mikið að segja um hana, hún er bara nr.1. (samt svona þegar ég fer að hugsa það er American Psycho fáránlega close second...)
Langar til að setja svo tvö myndbrot úr henni hérna, gjörið svo vel:
og
1 ummæli:
Fín færsla. 7 stig.
Skrifa ummæli