mánudagur, 15. september 2008

Á tæpasta vaði ;)

Í síðustu viku gerði 20th Century foxy lady myndina "Á tæpasta vaði ;)". Í hópnum voru ásamt mér Andri Gunnar, Birta, Björn Ívar, Héðinn og Kristján.

Stjáni hafði fengið ágætis hugmynd um söguþráð og við unnum út frá henni. Við hittumst eftir skóla og byrjuðum á því að ákveða nákvæmlega hvað við ætluðum að gera, unnum aðeins með söguþráðinn og skipulögðum atriðaröð o.fl..

Eftir að söguþráðurinn og atburðaröðin var nokkurn veginn komin á hreint fórum við heim til Birtu til að taka upp fyrstu atriði myndarinnar. Við höfðum ákveðið að hafa myndina þögla og að hún ætti að gerast í fortíðinni. Þarna vorum við kannski enn undir áhrifum Buster Keaton síðan um morguninn þegar við horfðum á The General í tíma. Að sjálfsögðu var vélin stillt á "epic war movie" stillingarnar og svo hófumst við handa við að taka upp. Ég og Stjáni sáum að mestu leyti um kvikmyndatökuna og mér fannst mjög gaman að læra alltaf aðeins betur og betur á vélina.

Söguþráður myndarinnar er á þá leið að Héðinn lék hermann sem er kallaður í herinn til að fara og berjast í stríði sem brotist hefur út. Birta leikur konu hans og þau eru sorgmædd yfir því að hann þurfi að fara. Andri G og Stjáni sjást svo í seinni hluta myndarinnar sem siðblindir Herforingjar sem leika sér að hersveitum sínum án þess að hugsa um afleiðingarnar.

Við tókum myndina alla upp á mánudeginum og svo á þriðjudeginum fórum ég og Andri í það að setja hljóð yfir hana alla. Eftir nokkra örðugleika í byrjun komumst við þó í gang og eftir það gekk verkið mjög vel. Mér fannst okkur takast ágætlega til við að finna tónlist sem hæfði myndinni og skerpti á þeirri stemningu sem við vildum að væri ríkjandi í hverju atriði.

Hópurinn var sammála um það að okkur hefði tekist mun betur til með myndina heldur en við bjuggumst við í upphafi. Þó var maður alltaf að læra allan tíman, á vélina, birtustillingar o.fl. og svona eftir á að hyggja eru nokkur atriði sem ég myndi kannski vilja gera aðeins öðruvísi en í heild er ég bara mjög ánægður með útkomuna og fannst þetta mjög skemmtilegt verkefni. Eftir þetta þá er ég bara nokkuð heitur fyrir því að skella mér á Gretti Kabarett og er svona að melta þá pælingu en það verður bara að koma í ljós...


Annars hafði ég líka mjög gaman af því að sjá myndir hinna hópanna. Mér fannst allar myndirnar nokkuð vel heppnaðar og hafði gaman af því hversu ólíkir stílar og pælingar voru í þeim. Ég veit ekkert hvaða mynd mér fannst best en það er alveg tvennt sem mér fannst mjög gaman að, annars vegar var það Klámkóngurinn Anton og hins vegar blóðið úr Jóa splatterað á vegginn fyrir aftan hann.


Einnig má nefna að ég er nokkurn veginn búinn að negla niður topp10 listann minn eftir mikla umhugsun svo sú færsla fer bráðlega að detta inn á síðuna.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 6 stig.

Ég vona svo sannarlega að þú drífir þig á Gretti. Það er örugglega verulega gaman.